Félagsfræðibíó

Félagsfræðibíó

„Að horfa á góða kvikmynd í góðum félagsskap er góð og gagnleg skemmtun”.

Kvikmyndir geta verið merkingarbær spegill á samfélagið og þannig nýst til að greina samfélagið, vekja upp spurningar og umræðu um þróun þess, og setja brýn málefni þess á oddinn. Við tókum okkur því saman, nokkrir félagsfræðingar í Háskóla Íslands, og stofnuðum bíóklúbb sem ætlað er að standa fyrir kvikmyndaviðburðum með fræðilegu ívafi – svokallað félagsfræðilegt bíó.

Félagsfræðibíóið hefur þau markmið að: – skapa vettvang fyrir samtal um samfélagið með aðstoð kvikmynda – bjóða fólki sem hefur áhuga á lífinu og tilverunnni að eiga samverustund í almannarýminu – og skapa félagslega töfra með öðru fólki – vekja athygli á mikilvægi menningarlegra stofnana eins og kvikmyndahúsa fyrir einstaklinga og samfélag

Félagsfræðibíóið stendur fyrir mánaðarlegum bíóupplifunum í Bíó Paradís. Boðið er upp á sýningu fjölbreyttra kvikmynda, nýrra sem klassískra. Fyrir sýningar flytur fræðafólk, kvikmyndagerðarfólk eða samfélagsrýnar stutt erindi. Í lok sýninga eru gestir hvattir til að staldra við og ræða myndina og heimsmálin í góðum félagsskap fólks sem hefur áhuga á að greina lífið og tilveruna með aðstoð kvikmynda.

Viðburðir félagsfræðibíósins snúast ekki síður um að rækta félagslega nærveru og tengsl en að njóta góðra kvikmynda. Félagsfræðibíóið talar með öðrum orðum fyrir endurvakningu sameiginlegra upplifana, með aðstoð bíósins, sem uppsprettu ómetanlegra “félagslega töfra” sem getur örvað félagslegt samtal, meðvitund og samfélaglega virkni fólks. Félagsfræðibíóið starfar í góðri samvinnu við Bíó Paradís, Háskóla Íslands og Félagsfræðingafélag Íslands.

Sjá heimasíðu Félagsfræðibíósins á Facebook: https://www.facebook.com/profile.php?id=61573842622554

Scroll to Top