Forsíða » Um félagslega töfra
Félagslegir töfrar
Samfélagsrýni – fræðsluefni – ljósmyndir – bækur – fyrirlestrar
Um félagslega töfra
Félagslegir töfrar samfélagsins
Velkomin á vefsvæði þetta sem tileinkað er félagslegum töfrum
Efni síðunnar á rætur í bókinni SJÁUM SAMFÉLAGIÐ – sem kom út á vegum Háskólaútgáfunnar sumarið 2024 – þar sem ég beitti félagsfræðilegu innsæi til að greina kosti og galla nútímasamfélagins í gegnum ljósmyndir úr hversdagslífi vestrænna samfélaga.
Á síðunni má finna fjölbreytt efni sem rýnir í samfélagið sem félagslegt fyrirbæri sem verður að einhverju sem er meira og merkilegra en einstaklingarnir sem mynda það. Máttur samfélagsins er, með öðrum orðum, töfrum líkastur, og ég skilgreini því þetta félagsleg afl sem félagslega töfra.
Félagslegir töfrar felast í þeim ósýnilegu en stórkostlegu og lífsnauðsynlegu verðmætum sem myndast í félagslegum samskiptum og samveru fólks í samfélagi. Félagslegir töfrar eru, með öðrum orðum, aflið sem mótar hugmyndir, hugsanir, hegðun og sjálfsmynd fólks, dregur fólk hvert að öðru, gerir hóp að liði, og samfélagi að samfélagi.
“Þegar einstaklingar koma saman myndar nálægð þeirra hver við annan eins konar rafmagn sem upphefur þá á stórmerkilegan hátt”
Émile Durkheim, 1915
En umfjöllun um félaglega töfra þarf einnig að taka mið að andstæðu þeirra, félagslegri firringu. Það má víða sjá þess merki að félagslegir töfrar eru á undanhaldi í nútímasamfélaginu. “Félagslyndi á ekkert erindi innan skynsemishyggju nútímans, sem lítur á slíkt sem óþarfa slæpingshátt og tímasóun” sagði félagsfræðingurinn Georg Simmel fyrir margt löngu. Hnignun hins félagslega samneytis á enn frekar við í dag en á tímum Simmels, og greina má hvernig virðing samfélagsins fyrir félagslegu samneyti fólks fer dvínandi á kostnað vaxandi einstaklingshyggju og hugmyndum um verðleikaræði. Minni félagslegar samvistir ýta aftur á móti undir firringu sem farin er að einkenna hversdagslífið í meiri mæli en áður. Firringin birtist meðal annars í hækkandi tíðni einmanaleika, kvíða og angistar, sem og kulnunar; átakanlegri skautun (e. polarization) og hatursorðræðu; sem og óheftri efnishyggju, ójöfnuði og hamfarahlýnun – svo sitthvað sé nefnt. Efni þessarar síðu beinir sjónum að þessari varhugaverðu samfélagsþróun og hvetur lesendur til að; standa vörð um félagsleg svið samfélagsins, mynda félagslegra töfra með öðrum, og byggja upp félagsauð sem eykur heilbrigði einstaklinga og samfélags.
Á þessari síðu má finna helstu uplýsingar um bókina SJÁUM SAMFÉLAGIÐ: efni hennar; upplýsingar um aðferðafræði félagsfræðilegrar sjónrænnar greiningar; áframhaldandi greiningu á nútímasamfélaginu, tengda vettvangsathugunum sem ég hef fangað með ljósmyndum frá fjölbreyttum nútímasamfélögum; efni tengt fréttum og dægurmenningu; fræðsluefni um sjónræna félagsfræðilega samfélagsgreiningu; sem og upplýsingar um fyrirlestra og ráðgjöf sem ég býð upp á og henta fyrir fjölbreyttar stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök. Hægt er að nálgast allt ofangreint í flettiglugganum efst á síðunni.
Þessi síða er með öðrum orðum nokkurs konar upplýsinga- og yfirlitssíða yfir efni sem ég tengi við félagslega töfra samfélagins sem og þær ógnir sem að þeim steðja. Efni síðunnar getur vonandi vakið lesendur hennar til umhugsunar um bresti í þróun samfélagsins sem og verið hvatning til þeirra um að rækta félagsleg tengsl og byggja upp heilbrigð samskipti og þétt og virkt nærsamfélag.
Það er alla vega einlæg von mín að lesendur síðunnar geti nýtt sér efni hennar til gagns og gamans. Takk fyrir að líta við á síðunni.
Kveðja, Viðar Halldórsson.