Fyrsta sýning Félagsfræðibíósins – bíóklúbbs á vegum félagsfræðinga við Háskóla Íslands – var þýsk/íranska kvikmyndin The Seed of the Sacred Fig.
Félagsfræðibíóið mun standa fyrir mánaðarlegum bíóupplifunum í Bíó Paradís. Viðburðir félagsins snúast þó ekki síður um að rækta félagslega nærveru og tengsl en að njóta góðra kvikmynda. Félagsfræðibíóið talar með öðrum orðum fyrir endurvakningu sameiginlegra upplifana, með aðstoð bíósins, sem uppsprettu ómetanlegra “félagslega töfra” sem geta örvað félagslegt samtal, meðvitund og samfélaglega virkni fólks.
Sean Baker, leikstjóri Óskarsverðlaunamyndarinnar Anora súmmeraði upp einn megintilgang félagsfræðibíósins í þakkarræðu sinni á Óskarsverðlaunahátíðinni á dögunum með þessum orðum:
“Watching a film in a theatre, with an audience is an experience. We can laugh together, cry together, scream in fright together, perhaps sit in devastated silence together and in a time in which our world can feel very divided, this is more important than ever: It’s a communal experience you simply don’t get at home.”
Fyrir sýningu myndarinnar The Seed of the Sacred Fig var stutt kynning á sögusviði myndarinnar og eftir myndina spunnust fjörugar umræður í óformlegu spjalli fólks.
Almennt voru bíógestir á því að myndin hafi verið ansi “sterk” og áhrifamikil. Til dæmis var rætt hvernig ógnarstjórnina í Íran er hægt að tengja við þróunina þessi misserin í Bandaríkjunum og víðar í hinum vestræna heimi þar sem í vaxandi mæli er alið á ótta og tortryggni í krafti valdbeitingar. Einnig um upplifanir fólks í slíku umhverfi – þar sem áhugavert er að reyna að setja sig í spor aðalpersónannna. Og ekki síst hugrekki þeirra sem berjast gegn ógnarstjórn og ofsóknum – sem og hvernig reynt er að brjóta slíkt hugrekki á bak aftur í krafti hefða og valds. Einnnig var rætt hvort fólk gæti verið vont að eðlisfari eða hvort félagsmótun og aðstæður smám saman þrýstu fólki í að gera vonda hluti – og þá hvernig samfélagskerfi standa með og verðlauna þá sem ganga sem lengst í því að reyna að viðhalda slíku kerfi. Þetta eru bara örfá dæmi um umræðurnar sem sköpuðust meðal fólks á víð og dreif um húsakynni Bíó Paradís eftir myndina.
Eitt er þó víst að viðburður Félagsfræðibíósins var uppspretta fjölbreyttra vangaveltna bíógesta um lífið og tilveruna sem er einmitt tilgangur þess.