Grein um firringu, félagsauð og félagslega töfra í tímaritinu Vísbending (11. október, 2024).
Um aldamótin kom út bókin Bowling Alone eftir bandaríska félagsfræðinginn Robert Putnam. Bókin var ákall til bandarískrar þjóðar um að hún þyrfti að vakna því hún væri að villast af leið og komin á braut mannlegrar firringar og afmennskunnar. Putnam beindi sérstaklega ljósi að dvínun félagslegra samskipta þar sem dregið hafði verulega úr þátttöku Bandaríkjamanna í félagslegum athöfnum nærsamfélagsins. Þessa þróun taldi Putnam varhugaverða. Ef það dregur úr félagslegum tengslum og samveru fólks þá dregur einnig úr félagsauði samfélagsins sem skilur einstaklinga þess eftir einangraðri og berskjaldaðri.
Nú, tæpum aldarfjórðungi eftir að Putnam reifaði áhyggjur sínar af þeirri samfélagsþróun sem hann gerði grein fyrir í Bandaríkjunum hafa afleiðingar hennar ágerst. Hnignun bandarísks samfélags hefur opinberast. Vaxandi firring, þverrandi félagsauður, aukin misskipting, harðskeittari skautun, viðvarandi ótti og óöryggi, og upprisa fáránleikans eru dæmi þeirrar hnignunar. Bowling Alone hefur því sterka stöðu í fræðunum og hefur boðskapur hennar náð eyrum þeirra sem setið hafa á forsetastóli í Bandaríkjunum.
En nú þegar þessara sömu einkenna og Putnam gerði grein fyrir í Bandaríkjunum, á sínum tíma, verður vart í samfélagsþróun hér á landi er tímabært að staldra við og taka umræðu um stöðu samfélagsins og framtíð þess. Hefur íslenskt samfélag villst af leið? Af hverju? Og hvað er til ráða?
Firring samfélagsins
Í kjölfar upplýsingarinnar (e. the Enlightenment,1680-1790), sem bar með sér vaxandi skynsemishyggju (e. rationalization) og afhelgun (e. seculularization) samfélagsins, fóru nútímasamfélög að einkennast af aukinni áherslu á skilvirkni, reiknanleika og fyrirsjáanleika á kostnað óformlegri samskipta fólks. Þessar breytingar á grunnvirkni samfélagsins leiddu til framfara á ýmsum sviðum þess og einkennist nútímavæðingin því af aukinni velmegun, jafnrétti og almennu heilbrigði en áður hefur þekkst. En nútímavæðingin hefur sína ágalla. Sú skynsemishyggja sem nútímavæðingin byggir á gengur út á að samfélaginu sé stýrt á efnhagslegum forsendum frekar en manneskjulegum. Sú varhugaverða þróun, sem hefur vaxið hratt á undanförnum árum, hefur afmennskað samfélagið og leitt til aukinnar félagslegrar einangrunar, mannlegrar angistar, firringar og siðrofs. Félagslegt heilbrigði samfélagsins hefur þverrað og þær forsendur sem mannlegt samfélag byggir á kunna að vera að bresta. Það má halda má því fram að samfélagið eigi í tilvistarkrísu.
Óskynsemi skynsemishyggjunnar, ef svo má að orði komast, felst í því að hugmyndir um aukna framleiðni og skilvirkni, á forsendum reiknilista búrókrata stofnana og atvinnulífs, eru settar ofar mannlegum þörfum um félagsleg tengsl og nánd. Þessi þróun hefur skapað ójafnvægi á milli félagslegra þarfa fólks og skilvirkni hversdagslífsins sem setur tilvist mannlegs samfélags í uppnám. Hversdagslífið byggir þannig á óhóflegri eiganasöfnun og gölluðum hugmyndum um verðleikaræði, og snýst í auknum mæli um einstaklingsbundin þægindi og stóraukna neysluhegðun. Þessi þróun magnar upp einstaklingshyggju og sjálfhverfu á kostnað heildarhyggju, samkeppni á kostnað samvinnu, og yfirborðskenndrar tilveru á kostnað dýpri og merkingarbærari tengsla.
Firring samfélagsins birtist í stórum og vaxandi vandamálum sem einstaklingar finna á eigin skinni. Aukin angist fólks, sem til dæmis má greina í hækkandi tíðni einmanaleika, kvíða, og kulnunar. Harðskeittari skautun (e. polarization) með tilheyrandi afmennskun, afvegaleiðingu, útilokun og hatursorðræðu. Vaxandi ójöfnuður þar sem þeir ríku verða sífellt ríkari og valdameiri –græða þannig á ástandinu og vilja viðhalda því – á meðan þeir fátæku sitja fastir í fátækt. Þverrandi öryggiskennd fólks þar sem fólk upplifir að heimurinn sé sífellt hættulegri og því beri að forðast ókunnuga – með tilheyrandi lögregluveldi, vopnavæðingu og eftirliti með borgurunum. Og stóraukin neysluhegðun þar sem fólk kaupir meira en það þarf sem einhvers konar friðþæging fyrir vaxandi vansæld og óöryggi, eru allt dæmi um samfélagsleg vandamál sem eru raunveruleg og stafa af vanrækslu á félagslegum þörfum fólks og innviðum samfélaga. Þróun samfélags skynsemisvæðingarinnar dregur, með öðrum orðum, úr félagslegu heilbrigði einstaklinga og samfélags.
Félagslegt heilbrigði
„Skynsemishyggjan lítur á félagslyndi sem óþarfa slæpingshátt og tímasóun“ áréttaði félagsfræðingurinn Georg Simmel í upphafi þarsíðustu aldar. Það á enn frekar við í dag en á tímum Simmels. Skynsemisvæðingin magnaðist upp í kjölfar Covid faraldurins þar sem varnir almennings fyrir yfirgangi tæknilegra lausna á öllum sviðum hversdagslífsins féllu og hefur tæknin tekið yfir samfélagið í krafti hugmynda um aukið hagræði og aukna skilvirkni. Það má sjá hvernig innreið tæknilausna í hversdagslíf fólks hefur dregið úr beinum félagslegum samskiptum þess á milli. Í skilvirkari samfélögum þurfa einstaklingar síður að eiga samskipti. Fólk getur unnið heiman frá sér, sótt kennslustundir úr herberginu sínu, stundað bankaviðskipti í gegnum app, verslað í gegnum heimsendingu, og átt samskipti í gegnum skjái – svo fátt eitt sé nefnt. En skýrleikinn sem fólk ávinnur sér í slíku tæknivæddu skipulagi og einfaldar líf þess grefur á sama tíma undan félagslegu heilbrigði þess.
Nútímasamfélaginu er í vaxandi mæli stýrt á forsendum tæknilegrar skynsemishyggju (e. technological rationalism) þar sem áherslur um hagræði og skilvirkni trompa hugmyndir um félagslega virkni fólks. Þessi þróun er óskynsamleg. Rannsóknir sýna ítrekað fram á mikilvægi beinna félagslegra samskipta fyrir heilsu og líðan fólks og þar með fyrir velferð samfélagsins. Félagsleg samskipti eru grunnbyggingarefni samfélagsins. Þau stuðla að vellíðan fólks og tilfinningunni fyrir að tilheyra einhverju sem er stærra, meira og merkilegra en einstaklingar eru einir og sér. Þau draga úr einmanaleika, kvíða, þunglyndi, skautun og ótta. Einnig árétta rannsóknir mikilvægi félagslegra samskipta, samveru og samvitundar fyrir árangur á ýmsum sviðum, eins og í tækniþróun, listum, íþróttum, og námi – svo sitthvað sé nefnt. Slíkar rannsóknir benda til að mynda á mikilvægi óformlegra samskipta, eins og þegar fólk borðar saman eða hittist við kaffivélina, fyrir þróun hugmynda, lausna og nýsköpunar. Félagsleg samskipti skapa félagslega töfra sem gerir heildina að einhverju meiru en summu einingana sem mynda hana, þar sem einn plús einn verður þrír. Samvistir fólks eru þannig gulls ígildi.
Þegar sameiginlegum stundum fólks í samfélaginu fækkar þá kvarnast úr samvitund, trausti og samtakamætti. Með öðrum orðum, þegar dregur úr beinum samskiptum manna á milli þá dregur úr félagsauði samfélaga. Þannig gera tæknilausnirnar fólki kleift að komast hjá félagslegum samskiptum við aðra og ýta undir þá hugmynd að einstaklingar séu sjálfum sér nægir og skynja því ekki endilega að mikilvægi þess að eiga samfélag með öðrum. Fólk á þess í stað stafræna félaga. En samskipti við stafræna félaga í gegnum skjái eru ófullkomin og takmarkandi samskipti í samanburði við augliti-til-auglitis samskipti. Slík samskipti geta verið viðbót við samskipti í raunheimum en þau koma ekki í stað milliliðalausra samskipta.
Með öðrum orðum þá mynda félagsleg samskipti tengsl og traust manna á milli sem skilgreina má sem félagsauð (e. social capital). Slíkur félagsauður er raunverulegur, mikilvægur og verðmætur fyrir einstaklinga og samfélag. Fólk tekur honum þó jafnan sem gefnum og áttar sig ekki á mikilvægi hans fyrr en það gengur á hann, eins og við erum kannski að upplifa þessi misserin.
Hvað er til ráða?
Í nýlegu viðtali sagði Robert Putnam að þegar fólk færi að hafa meiri áhyggjur af öðrum en því sjálfu þá væri leið út úr firringunni. Þá færi fólk að gefa meira til samfélagsins en það þiggur. Þannig myndast félagsauður og forsendur fyrir heilbrigðu og réttlátu samfélagi. Georg Simmel sagði enn fremur að „félagslyndi væri gjöf einstaklingins til samfélagsins“. Til að mynda gott og sanngjarnt samfélag þarf að efla félagslegt heilbrigði fólks. Það þarf að standa vörð um félagsleg samskipti og efla þau, næra og fóstra, frekar en veikja og grafa undan. Það þarf að skapa forsendur, bæði formlegar og óformlegar, fyrir að fólk getið komið saman, rætt málin, deilt reynslu og hugmyndum, tengst tilfinningalegum böndum, brosað, hlegið, grátið, og skapað félagslega töfra með hvert öðru. Samfélag sem vill ekki tapa sjálfu sér þarf, með öðrum orðum, að fjárfesta í félagslegum tengslum. Slík fjárfesting eykur velferð einstaklinga og samfélags, styrkir hópinn inn á við, eykur flæði hugmynda og upplýsinga, eykur afköst, stuðlar að vellíðan fólks og árangri heildarinnar, og dregur úr félagslegum vandamálum einstaklinga og samfélags.
Hér er þó ekki verið að leggja til óraunhæfar og óæskilegar hugmyndir þess efnis að samfélagið snúi baki við tæknilegri skynsemishyggju og hverfi aftur til fortíðar, heldur er þessari grein einungis ætlað að árétta mikilvægi beinna félagslegra samskipta fyrir uppbygginu heilbrigðs, réttláts og árangursríks samfélags. Félagsleg samskipti eru forsenda samfélagsins frekar en fylgihlutur þess. Þau eru töfrum líkust þar sem þau skapa ómissandi félagsauð sem gerir fólk heilbrigðara, auðugra og farsælla. Dvínun félagslegra samskipta hefur í för með sér andstæður þess.
Efni greinarinnar byggir á eftirfarandi heimild:
Viðar Halldórsson (2024). Sjáum samfélagið: Félagsfræðileg greining á nútímasamfélaginu út frá ljósmyndum úr hversdagslífinu. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Viðar Halldórsson er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, höfundur bókarinnar Sjáum samfélagið, ráðgjafi íþróttaliða, og fyrirlesari fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök.