Frétt um sýninguna og bókina Sjáum samfélagið af heimasíðu Háskóla Íslands
– Firring skjásamfélagsins í forgrunni í nýrri bók og sýningu
„Samskipti eru grundvallarbyggingarefni samfélags. Ég er að rýna í það hvernig við getum byggt upp gott og heilbrigt samfélag í gegnum félagslega töfra en einnig hvað ýtir undir hið gagnstæða, firringu nútímasamfélagsins. Ég tel að við séum ekki endilega á réttri leið sem samfélag vegna þess að við erum að draga úr samskiptum augliti til auglitis og eigum í auknum mæli samskipti í gegnum skjámiðla sem eru miklu takmarkaðri og ýta undir alls konar firringu, eins og aukna skautun, einmanaleika og fleira,“ segir Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við HÍ, um nýja bók sína, Sjáum samfélagið. Samhliða útgáfu bókarinnar fimmtudaginn 22. ágúst opnar Viðar ljósmyndasýningu á Háskólatorgi þar sem firring skjásamfélagsins er í forgrunni.
Óhætt er að segja að ljósmyndir leiki lykilhlutverk í bók Viðars en þær nýtir hann til að bregða ljósi á ýmsa þætti í vestrænum nútímasamfélögum, þætti sem við tökum kannski ekki eftir við fyrstu sýn en verða skýrari þegar nánar er að gáð.
Í bókinni beitir Viðar aðferðum svokallaðrar sjónrænnar félagsfræði, sem er ein af undirgreinum félagsfræðinnar sem á rætur rekja til Bandaríkjanna, en henni kynntist Viðar fyrir réttum áratug. „Howard Becker er mjög þekktur félagsfræðingur og hann segir að ljósmyndir séu eins konar tilvistarsannanir. Það sé raunverulegra að sjá einhvern af holdi og blóði heldur en að lesa eða heyra um það. Þessi sjónræna félagsfræði byggist á því að greina það sjónræna, hvort sem það eru ljósmyndir eða hreyfimyndir eða jafnvel kvikmyndir, þótt þær séu skáldskapur. Þær segja okkur eitthvað um samfélagið, okkur sjálf og sjálfsmynd og samskipti,“ bendir Viðar á.
Óhlutbundir þættir samfélags sjást í ljósmyndum
Sjálfur var Viðar byrjaður að taka ljósmyndir sér til gamans þegar hann kynntist sjónrænu félagsfræðinni „en svo fór ég meira að reyna að taka myndir sem voru félagsfræðilegar frekar en fagurfræðilegar.“
Smám saman söfnuðust myndirnar upp og Viðar fór að huga að því að koma þeim einhvern veginn frá sér. „Þá datt mér í hug að gera einfalda bók þar sem ég ætlaði að sýna samfélagið og ljósmyndirnar áttu að vera nýttar til greiningar. Slík greining getur leitt í ljós hluti sem eru óhlutbundnir, eitthvað sem erfitt er að festa fingur á, ósýnilegt afl í samfélaginu, eins og kapítalisma, feðraveldi og lagskiptingu samfélagsins. Það er hægt að sýna þetta betur í gegnum ljósmyndir og tengja saman ljósmyndir og greiningu. Þegar ég hófst svo handa við bókina þá vatt þetta upp á sig og bókin varð miklu flóknari og stærri og greiningin mun meiri en ég stefndi að í upphafi. Afrakstur varð svo Sjáum samfélagið,“ segir Viðar um þessa efnismiklu bók.
Aðspurður segist hann hafa látið myndirnar stjórna umfjöllunarefnum bókarinnar. „Ég var ekki með neitt fyrir fram gefið um hvað ég ætlaði að segja í bókinni heldur tók ég myndir af víðavangi héðan og þaðan, bæði á Íslandi og erlendis, og svo settist ég yfir hverja og eina og velti fyrir mér: Segir þessi mynd mér eitthvað um samfélagið? Smám saman byggðust upp einhvers konar þemu í myndunum mínum, eins og félagsauður, hjarðhegðun, stéttskipting og neysluvæðing, sem fóru að stýra viðfangsefnum mínum í bókinni,“ segir Viðar um bókina.
Viðar tekur dæmi. „Stundum eru myndirnar þannig að ég smelli af í einhverjum mannfjölda, ekki af neinu sérstöku, og þegar maður skoðar myndina eftir á og sérstaklega ef maður er með nokkrar svoleiðis myndir fer maður að sjá mynstur. Það eru allir að horfa í snjalltækin sín, það er enginn að haldast í hendur. Slíkir hlutir eru áhugaverðir fyrir mig sem félagsfræðing. Hvað er þetta samfélag og hvernig hegðum við okkur?“ spyr hann og bætir við að hann nýti þessa aðferð einnig í kennslu. „Ég er þegar byrjaður að láta nemendur taka myndir og greina þær. Þeim finnst það mjög skemmtilegt af því þetta er frekar nýstárleg nálgun á félagsfræðina og hlutina í kringum okkur.“
En hvað skyldi heilla hann sjálfan við ljósmyndunina sem grein? „Mér finnst ljósmyndunin gera hversdaginn skemmtilegri, að vera með myndavélina á öxlinni og fara eitthvað. Þá er ég að horfa á eitthvað sem enginn annar er að horfa á, dást að fegurðinni í hversdeginum, maður sér einhver samskipti eða eitthvað slíkt, fallegt tré eða fugla. Þetta er ákveðin núvitund og maður áttar sig á fegurðinni allt í kringum okkur í hversdeginum,“ svarar Viðar að bragði.
Gagnrýnin sýn á samfélagsþróunina
Í bókinni er að sögn Viðars að finna gagnrýna sýn á ákveðna samfélagsþróun. „Ég tel að samfélagið sé í mikilli krísu með eitt og annað og bókin verður mjög gagnrýnin þegar líður á hana. Greiningin tekur svolítið yfir þannig að ég held að bókin sé bæði framlag til lesenda sem vilja átta sig á félagsfræði og um hvað hún snýst og líka fræðilegt innlegg í umræðuna um samfélagsmál,“ bætir hann við.
Inntur eftir því hvaða samfélagsmál hann rýni í segir Viðar að tvö lykilþemu komi fyrir í bókinni. Annars vegar eru það félagslegri töfrar, hugtak sem spratt upp við vinnslu bókarinnar og Viðar hefur m.a. kynnt í erindum víða um bæ og í fjölmiðlum. „Í því felst að samskipti okkar þegar við hittumst eru svo dýrmæt, að hitta manneskju á förnum vegi og eiga við hana innihaldsrík samskipti,“ útskýrir hann og bætir við: „Félagslegir töfrar eru grundvallarbyggingarefni samfélagsins og félagsfræðingurinn Georg Simmel sagði einhverju sinni að félagslyndi væri gjöf einstaklingsins til samfélagsins.“
Að sögn Viðar tengist hitt lykilþema bókarinnar því að samfélagið sé að færast í átt að aukinni firringu og ýmis gögn styðji það, t.d. um aukinn einmanaleika í samfélaginu, aukna skautun, hatursorðræðu og ójöfnuð. „Ég er svolítið að segja að félagslegir töfrar séu meðalið til þess að lækna samfélagið. Við þurfum að passa upp á félagsleg samskipti og við þurfum að reyna að rækta nærsamfélög okkar með markvissari hætti,“ bendir Viðar á.
Hann bætir við að í amstri dagsins einblínum við oftar en ekki á það sem við sjálf erum að fást við en gleymum kannski að allt sem við gerum hefur afleiðingar þegar það safnast upp. „Uppsöfnuð áhrif skjávæðingarinnar eru slæm fyrir samfélagið þótt það sé rosa gott að geta t.d. farið á fundi á Zoom og átt bankaviðskipti á netinu. Þess vegna tala ég um að sjá samfélagið. Við þurfum sjá þessi uppsöfnuðu áhrif og þetta stóra óhlutbundna sem umlykur okkur öllum stundum og stjórnar okkur og stýrir og hefur áhrif á m.a. líðan okkar og sjálfsmynd,“ segir hann.
Félagsfræðin góð til að sjá stóru myndina
Aðspurður um það fyrir hverja bókin sé hugsuð segir Viðar að hún sé í senn fyrir hinn almenna lesanda en í henni felist þó fræðileg greining sem geti nýst einstaklingum og samfélagi. „Ég er kannski að brjóta einhverjar reglur um að markhópurinn þurfi að vera skýr en þetta getur verið grunnbók í félagsfræði því ég tek þarna fyrir fjölmörg hugtök og skýri þau en þetta er ekki síður fræðileg greining sem er innlegg til fræðanna og á erindi í almenna umræðu,“ segir hann.
Þá segir hann félagsfræðina nýtast afar vel til að greina þá núningsfleti sem við sjáum í samfélaginu í dag. „Félagsfræðin er góð til að sjá stóru myndina, þetta óhlutbundna, og í bókinni er ég að gera grein fyrir þessum óhlutbundna, stóra veruleika í gegnum myndir af einstaka augnablikum, ég er að setja augnablik í víðara samhengi, að greina það stóra í gegnum það smáa.“
Nálgast félagsfræðina með nýstárlegum hætti
Hliðarverkefni bókarinnar er ljósmyndasýningin Firring skjásamfélagsins sem opnuð verður samhliða útgáfu bókarinnar fimmtudaginn 22. september kl. 16.30 á neðstu hæð Háskólatorgs, nánar tiltekið á ganginum sem nefnist Tröð og tengir saman Gimli og Háskólatorg. „Titill sýningarinnar tengist einu þemanu í bókinni og flestar myndanna á sýningunni eru í bókinni en einnig má finna fleiri myndir á sýningunni sem tengjast þessu þema. Með þessu er ég að reyna að nálgast félagsfræði og tengd fræði með nýstárlegum hætti en í stað þess að nýta bara skrifaðan texta, viðtöl eða spurningalista eins og lengi hefur tíðkast. Þarna eru ljósmyndir notaðar sem vettvangsgögn og þær settar í fræðilegt samhengi, líkt og ég gerði í bókinni“ segir Viðar um sýninguna sem stendur til 13. september.
Vettvangur sýningarinnar er engin tilviljun því að sögn Viðars hefur háskólasamfélagið líkt og önnur samfélög látið á sjá vegna áhrifa skjátækninnar. „Mannlífið hefur aðeins látið á sjá hér í háskólanum eftir COVID-19-faraldurinn, það er minni umgengni um háskólasvæðið en fyrir faraldur og Háma hefur þurft að loka ákveðnum útibúum á háskólasvæðinu, eins og hér í Odda, af þessum sökum. Við í háskólanum þurfum að passa upp á þetta samfélag. Við þurfum að gera þetta eftirsóknarvert þannig að fólk komi. Þess vegna er ég að halda þessa sýningu. Ég er að búa til viðburð í háskólanum sem stuðlar að mannlífi. Það er eitthvað að gerast hérna og markmiðið er að fá fólk til að koma saman og ræða saman,“ segir Viðar og undirstrikar að þetta sé honum mikið hjartans mál.
Þurfum að halda í gott háskólasamfélag
„Þetta er það sem háskólar eiga að gera. Rektor Stanford-háskóla var að tala um það að háskólinn væri lykilstofnun samfélagsins til að leiða fólk saman og ræða hluti til að koma t.d. í veg fyrir aukna skautun í samfélaginu. Við þurfum að fá fólk á staðinn með ýmsum hætti og ég kalla eftir því að við sem vinnum hérna, hvort sem það er starfsfólk eða nemendur, séum meðvituð um að við þurfum að búa til samfélag hérna. Ef við höngum öll heima með tæknigræjurnar okkar og hittumst bara á netinu þá visnar samfélagið bara upp og deyr. Þá verður engin Háma eða Bóksala, þá er ekkert að gerast hér á göngunum, þá er háskólinn ekki að sinna hlutverki sínu sem er að fá ólíkt fólk á staðinn, ræða og vinna saman. Tilgangurinn með sýningunni er því líka að skapa félagslega töfra og skapa umræðu um þessi mál sem ég er að fjalla um í bókinni minni,“ segir Viðar að endingu.
Sjá frétt um sýninguna af heimasíðu Háskóla Íslands: Firring er andstæða félagslegra töfra
Mynd: Kristinn Ingvarsson