Markaðir óhollustunnar, eins og verslunin á myndinni er dæmi um, vöktu athygli mína á ferð minni um borgina Leicester í Englandi. Bæði fyrir allt það samansafn af óhollustu sem birtist í útstillingum slíkra verslana, sem samanstendur eingöngu af vörum sem eiga það sameiginlegt að vera heilsuspillandi, en ekki síður fyrir litadýrðina sem jafnan einkennir óhollar vörur. Þegar ég svo fletti Guardianblaði dagsins rak ég augun í tvær fréttir sem tengjast málinu. Önnur fréttin fjallaði um niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar sem sýndi að tilfellum sykursýki hefði tvöfaldast á síðustu 30 árum, og herjaði sérstaklega á fólk í lægri stéttum samfélagsins. En áunnin sykursýki er meðal annars afleiðing af óhollum lífsháttum og mataræði. Þau Vestrænu lönd sem skoruðu hæst voru Bandaríkin og Bretland. Hin fréttin sagði frá rannsókn sem sýndi hvernig fyrirtæki sem framleiða sælgæti og aðra óhollustu herjuðu markvisst á börn. Þannig sýndi rannsóknin að auglýsingar i kringum barnatíma í sjónvarpinu voru aðallega frá framleiðindum óhollustu, eins og sætinda og skyndibita. Óhollustuiðnaðurinn reynir þannig markvisst að ná til barna og ungmenna, ekki ósvipað og tóbaksiðnaðurinn, með það að markmiði að tryggja sér framtíðarneytendur sem eru ómeðvitaðir um hættur óhollustunnar.