Það var tvennt sem vakti athygli mína á götum Helsinki í Finnlandi, þar sem ég var staddur á dögunum. Í fyrsta lagi virtust ívíð færri vera í snjalltækjunum sínum á almannafæri, en td í London, Reykjavík og Tókýó. Einnig virtust fleiri pör haldast í hendur á almannafæri en víðast hvar annars staðar – sem fólk hefur frekar tök á að gera þegar það er ekki með snjalltæki í hendinni. Þetta má sjá á meðfylgjandi mynd.
Samkvæmt könnunum eru Finnar ein hamingjusamasta þjóð í heimi. Það sýna mælingar þrátt fyrir að þeir virðist vera – og eru að eigin sögn – frekar lokaðir og ekki ræðnir við ókunnuga, sem gjarnan ýtir undir einsemd fólks. En kannski vegur þessi nánd sem myndin endurspeglar upp á móti almennri fjarlægð þeirra meðal almennings, og gerir þá hamingjusama. Því samkvæmt könnunum skora þeir hátt á mælikvörðum sem spyrja hvort þeir eigi góða að ef eitthvað bjátar á. Nándin við aðra reynist þeim væntanlega mikilvæg.
Helsinki, Finnland 2024.