Mikilvægi þriðja rýmisins

Mikilvægi þriðja rýmisins

Árið 1989 skilgreindi félagsfræðingurinn Ray Oldenburg hugtakið þriðja rýmið (e. third place) – sem mætti kalla almannarýmið. En þriðja rýmið vísar til svæða utan heimilis (fyrsta rýmið) og vinnu (annað rýmið) þar sem fólk kemur saman, hittir vini, og kynnist ókunnugum. Þetta eru öllu jafna almenn svæði sem hafa þann tilgang að svala félagsþörfum fólks, ýta undir samskipti, leik og nýsköpun, og efla nærsamfélagið. Dæmi um þriðja rými eru kaffihús, barir, bókasöfn, heitu pottarnir, kvikmyndahús, torg, og almenningsgarðar. Umræðan í Bandaríkjunum er að þriðja rýmið eigi undir högg að sækja. Bæði er fólk meira í vinnu og hefur minni tíma til félagslegra athafna í þriðja rýminu, sem og snjalltæki taka meiri tíma af fólki, þar sem það er eitt með tækinu sínu, sem matar það með hjálp algrímis hvers og eins, frekar en að hitta aðra í almannarýminu. Við það má bæta að þriðja rýminu er í vaxandi mæli útrýmt úr skipulagi tæknilegrar skynsemishyggju. Þessi þróun þykir varasöm þar sem hún veikir nærsamfélagið, dregur úr félagsauði þess, og skilur einstaklinga eftir einangraðri. Sama þróun kann a vera að gerjast hér á landi. Á myndinni má sjá fólk koma saman við leik í almenningsgarði í Tókýó. Leik sem sameinar, gleður, og styrkir.

Scroll to Top