Fólk gerir sér jafnan ekki grein fyrir uppsöfnuðum áhrifum hversdagslegra athafna sinna. Hagfræðingurinn Alfred Kahn kallaði fyrirbærið “harðstjórn smávægilegra ákvarðana” (e. tyranny of small decisons). Dæmi um óæskileg og uppsöfnuð áhrif hversdaglegra athafna er þegar neysluhegðun fólks hefur skemmandi áhrif á jörðina, eða þegar þátttaka þess í skjáheimum grefur undan félagslegu heilbrigði nærumhverfisins. En fólk á jafnan erfitt með að gera sér grein fyrir uppsöfnuðum afleiðingum þar sem það verður þeirra ekki vart, sem og þær geta birtst löngu síðar. Það eru þessi uppsöfnuðu áhrif sem mynda samfélagið.
En myndin hér að ofan er dæmi um óæskileg uppsöfnuð áhrif hversdagslegra athafna sem verða fólki ljós í rauntíma. Fólki á höfuðborgarsvæðinu finnst sjálfsagt að fara eitt sinna erindagjörða á einkabílnum. En uppsöfnuð áhrif þess finnur fólk á eigin skinni þegar það lendir í umferðarteppu – þar sem margir eru á sömu vegferð. Fólki hættir til að verða pirrað þegar það lendir í mikilli umferð, út í aðra sem og borgaryfirvöld, og fer jafnvel að líta á sig sem einhverskonar fórnarlömb þess að geta ekki keyrt einkabílinn hindrunarlaust á áfangastað. Fólk áttar sig ekki á að athæfi þess er hluti af vandamálinu og felur vaxandi einstaklingshyggja í sér að fólk vill að samfélagið aðlagi sig að sínum þörfum frekar en að það aðlagi sig að samfélaginu.
Ef fáir gera eitthvað þá hefur það engin teljandi samfélagsleg áhrif, líkt og á við um bílana sem eru á ferð vinstra megin á myndinni. En þegar fólk gerir eitthvað oft, eða þegar margir gera eitthvað – eins og á við um bílana hægra megin á myndinni – þá hefur það uppsöfnuð áhrif sem móta samfélagið.
Umferðarteppur geta þannig hjálpað fólki að sjá uppsöfnuð áhrif þeirra einstaklingsbundnu þæginda að ferðast á einkabíl í rauntíma, og gert sér í hugarlund hvernig aðrar athafnir þess, eins og hvernig kaup- og neysluhegðun þess skemmir jörðina, sem og hvernig skjáfíkn þess dregur úr félagslegri heilsu þar sem hún grefur undan nærsamfélaginu og þar með undan myndun félagslegra töfra.