Skautun og sjónarhorn

Skautun og sjónarhorn

Skautun (e. polarization) er vaxandi samfélagslegt vandamál. En skautun vísar til skiptingar samfélags í andstæðar fylkingar út frá viðhorfum og gildismati, sem gjarnan birtast í neikvæðum staðalmyndum, afmennskun og fordómum. Skautun virðist vera að aukast í nútímasamfélaginu þar sem andfélagsleg hegðun, fordómar og hatursorðræða færist í vöxt. Fólk er í meiri mæli innilokað í þröngum bergmálshellum með sínum líkum (e. echo chambers) og verður þar fyrir áhrifum einleitra upplýsinga og falsfrétta (e. fake news) sem ýtir undir skynjun þess að það sé æðra og hafi rétt fyrir sér, en aðrir hópar sem séu óæðri og þurfi að finna fyrir því á eigin skinni. 

Fólkið sem stendur á handriðinu á myndinni hér að ofan er að reyna að láta svo líta út að það sé að ýta undir Skakka turninn í Pisa, til að hann detti ekki. Við sjáum að konunni lengst til hægri virðist takast áætlunarverk sitt og er eins og hún styðji við turninn með fingrinum. Konan í hvíta bolnum miðjunni virðist vera röngu megin við turninn og karlinn lengst til vinstri er í órafjarlægð frá turninum, og því langt frá því að takast ætlunarverk sitt. 

En auðvitað vitum við að svo er ekki. Myndin sýnir einfaldlega mismunandi sjónarhorn á sama fyrirbærið. Konan lengst til hægri hefur ekkert réttar fyrir sér en karlinn vinstra megin á myndinni. Það er eingöngu sjónarhorn mitt sem ljósmyndarans sem gefur það til kynna. Með öðrum orðum þá byggir skautun á mismunandi sjónarhornum og er afleiðing af því að fólk á ekki samskipti sín á milli, talar ekki saman, og setur sig ekki í spor annarra. Myndin getur þannig vakið fólk til umhugsunar um hversu rangt og hættulegt viðkvæði “við” og “þið” getur verið fyrir einstaklinga og samfélag, og hversu mikilvægt það er að reyna að setja sig í spor annarra og sjá heiminn frá öðrum sjónarhornum en við erum vön.

Mynd höfundar: Pisa, Ítalía, 2024. 

 

Scroll to Top