Samruni

Samruni

Félagslegir töfrar geta myndast og birst með ýmsum hætti. Þeim getur líka verið ógnað. Til að mynda af uppgangi tæknilegrar skynsemisvæðingar (e. technological rationalization).

Þetta má til dæmis sjá í háskólum þar sem samskiptatæknin hefur verið nýtt til að stuðla að alls kyns fjarnámi og fjarvinnu á kostnað þess að nemendur og kennarar mæti í skólann. Það hefur ýmsar jákvæðar afleiðingar í för með sér eins og fleiri geta sótt sér menntun og starfsfólk hefur meiri sveigjanleika í sínum störfum.

Aftur á móti hefur þróunin þær óæskilegu afleiðingar að samfélag skólanna skerðist. Þegar það dregur úr mannlífi innan skólanna þá dregur úr samvistum fólks, augliti-til-auglitis, og þar með úr þeim fjölbreyttu félagslegu töfrum sem slíkt mannlíf skapar.

Myndin sýnir mannlíf á góðviðrisdegi fyrir utan Háskóla Íslands. Einhver viðburður er í gangi og fjöldi nemenda er þarna samankominn og skapar líflega félagslega stemningu. Fremst á myndinni. má sjá innilegt faðmlag tveggja kvenna. Skuggar þeirra virðast jafnframt renna saman í einn. Með öðrum orðum þá verður einhvers konar samruni milli þeirra sem myndar félagslega töfra í formi samvitundar, samhugar og samúðarskilnings.

Slíkir félagslegir töfrar eru einstaklingum og samfélagi mikilvægir, og kannski sérstaklega í háskólum sem eiga að stuðla að fjölbreyttu samtali sem getur spornað við vaxandi skautun (e. polarization), upplýsingaóreiðu (e. disinformation) og hatursorðræðu. Likamleg nálægð, sem fólk upplifir í augliti-til-auglitis samskiptum, hefur þannig mikla yfirburði yfir samskipti í gegnum tól og tæki. Það er því mikilvægt að fólk komi í skólann.

Mynd höfundar: Reykjavík, 2024.

Scroll to Top